Svampkaka

Einfaldasta uppskrift í heimi, þarf bara að muna tvær tölur: 225 og 4!

  • 225 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 225 g sykur
  • 225 g smjör
  • 4 egg
  • börkur(zest) af einni sítrónu

Þeytið vel saman sykur og smjör. Setjið eggin út í, eitt í einu, og hrærið vel á milli. Bætið hveitinu, lyftiduftinu og sítrónuberkinum rólega út í og hrærið þangað til vel blandað saman, en reynið að hræra eins lítið og hægt er.
Deiginu er skipt upp í tvö 20 cm hringlaga form og bakað við 180°C í 20 mín.(Athugið að það er mismunandi eftir ofnum, minn lélegi ofn tók sér 30 mínútur í að baka þetta) Kökurnar eru tilbúnar þegar þær eru gullbrúnar að lit, og ef tannstöngli er stungið í miðjuna þá kemur hann hreinn upp aftur. Látið kólna í nokkrar mínútur og setjið svo á kæligrind til að láta kólna alveg.
Þeytið 4 dl af rjóma(einn peli) með 1 tsk af sykri og skerið niður eina öskju af jarðarberjum eða einhverjum berjum/ávöxtum sem ykkur finnst góðir. Blandið berjunum út í rjómann. Bleytið í kökubotnunum með góðum safa, sherry eða líkjör. Smyrjið rjómanum á einn botninn og setjið hinn ofan á. Stráið flórsykri yfir kökuna.
Ég bakaði þessa í tilefni af próflokum og hún tókst afbragðsvel þrátt fyrir ömurlegan ofn.
Njótið vel.