Fylltir sveppir.

(Fyrir 4)
Hráefni:

  • 8 stk stórir sveppir
  • 100 gr. baconkurl
  • 1 geiri gráðostur
  • 2 stk hvítlauksrif
  • 1/4 lítri rjómi
  • fínt rifin ostur, helst gouda yfir 20% feitur


Meðhöndlun og matreiðsla:
Byrjið á því að taka til góðan pott eða grýtu og skuttla baconkurlinu í hana og hita vel undir þar sem baconið þarf meiri tíma en allt annað ef það á að verða gott. Athugið að þið þurfið ekki að nota olíu eða feiti þar sem nóg af henni kemur úr baconinu.
Meðan það er að krauma, (gleymið þó ekki að sulla aðeins í því þó) brjótið stilkana úr sveppunum en í öllum almáttugs bænum ekki skemma hattinn.
Saxið nú stilkana niður svo fínt að þeir verði nánast að dufti. Gerið slíkt hið sama við hvítlaukinn.
Ef baconið er farið að verða svolítið crispy, þá er tími til að bæta sveppastilkunum og hvítlauknum út í og hræra duglega í öllu saman og leyfa því aðeins að brúna sig, en þó ekki mikið. Passið bara að ofhita alls ekki því þá brennur allt við og verður bara vont.
Setjið nú gráðostinn út í og hrærið allann tíman sem hann er að bræða sig sundur og verða að sósu. Hellið að lokum rjómanum saman við eftir smekk, ekki víst að þurfi allan rjómann og haldið áfram að hræra þar til þetta er orðið að sæmilega þykku gumsi.
Leyfið þessu nú örlítið að kólna en aðeins í sirka fimm mínútur meðan þið fáið ykkur nýjan bauk af öli og reykið eina sígó. Þeir sem ekki drekka eða reykja geta þá notað tímann og skroppið á klóið.
En áður en þið stingið af kveikið þá á ofninum og hitið í 200 gráður og ekki nota blástur og ekki nota grill. Yfir/undir hiti er í lagi.
Raðið nú sveppahöttunum fallega í ofnskúffu eða á plötu, (NEI EKKI GAMLA GRAMAFÓNPLÖTU) ofnplötu þannig að sveppurinn, það er að segja hatturinn sé á hvolfi. Sem sé með opið upp í loft og mokið maukinu úr pottinum í þá upp að brún. Passið að ekki flæði út úr.
Takið nú dash af rifna ostinum og formið hann til þannig að hann passi út á brúnir á sveppnum og hylji fyllinguna þokkalega og bakið í ofni í sirka 10 mín eða þangað til sveppirnir hafa svitnað rækilega og osturinn bráðnað vel og jafnvel brúnast.
Berið fram með ristuðu brauði með ekta íslensku smjöri eða hvítlauskssmjöri.
Verði ykkur að góðu.