Cappuccino-ostaterta

Botn:

  • 125 gr hafrakex eða annað gott kex
  • ½ tsk kanill
  • 100 gr smjör

Fylling:

  • 400 gr rjómaostur
  • 200 gr flórsykur
  • 10 matarlímsblöð
  • 3 dl espressókaffi eða skyndikaffi
  • ½ lítri rjómi, þeyttur

Súkkulaðibráð:

  • 1 dl rjómi
  • 150 gr suðusúkkulaði


Botn :
Myljið kexið smátt og blandið kanil saman við. Bræðið smjörið og hrærið því saman við kexmylsnuna.
Setjið kökuhring eða hring af smelluformi, um 28 cm í þvermál, á kökudisk og dreifið kexblöndunni jafnt í hringinn og þjappið með kökuspaða.
Fylling :
Setjið matarlím í kalt vatn í skál og látið liggja þar í 10-15 mín.
Hrærið rjómaostinum og flórsykrinum saman og hrærið svo 2 dl af kaffinu saman við blönduna.
Hellið vatninu af matarlíminu og setjið 1 dl af kaffi saman við matarlímið. Hitið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði þar til límið er bráðið og blandið því saman við rjómaostinn.
Blandið strax á eftir þeytta rjómanum saman við.
Setjið fyllinguna ofan á kökubotninn í forminu og sléttið með kökuspaða. Látið standa í kæli í a.m.k. 2 klst. eða í frysti í 1 klst.
Súkkulaðibráð :
Hitið rjómann að suðu í örbylgjuofni eða í potti og saxið súkkulaðið smátt.
Blandið rjómanum og súkkulaðinu saman, látið kólna eilítið og hellið yfir kalda kökuna. Skreytið með konfektmolum eða rifnu sukkulaði.
Áður en hringurinn er fjarlægður utan af kökunni er best að hita hnífsblað og renna því með fram kökuforminu.