Hollari uppskriftir

Ekki eru allar uppskriftir jafn hollar, ég fékk þá ábendingu fyrir all nokkru, sem á mjög svo rétt á sér að hér vantaði heilsu rétti. Það hefur of lítið verið bætt úr því en hér eru nokkur ráð í þá átt.
Eftirfarandi er “tekið” að láni frá Lýðheilsustöð

 • Skiptið hluta af hveitinu út fyrir heilhveiti eða annað gróft mjöl.
 • Dragið úr notkun hneta og súkkulaðis í bakstri með því að hakka smærra og minnka magnið. Smærri bitar dreifast betur um deigið og gefa meira bragð.
 • Notið eplamauk að hluta í stað feiti í bakstur – það gefur deiginu mýkt og fyllingu.
 • Notið matarolíu í stað smjörlíkis – 0,8 dl af matarolíu koma þá í stað 1 dl af smjörlíki. Fitan verður mýkri fyrir vikið og æskilegri fyrir blóðfituna en kaloríurnar þó óbreyttar.
 • Til að draga úr fituinnihaldi í soðsósum er gott að setja þær í kæli í skamma stund – þá flýtur fitan upp á yfirborðið og auðvelt er að fjarlægja hana. Það sama gildir fyrir súpur. Hitið þær svo aftur áður en þið berið þær fram.
 • Veljið fituminni osta, viðbit og salatsósur.
 • Veljið fitulitla osta til bræðslu í heita rétti, t.d. smurost eða notið minna af osti og veljið þá bragðmeiri tegundir.
 • Léttmjólk getur oft komið í stað rjóma við matargerð.
 • Í stað þess að ausa feiti yfir steikina eða fiskinn við matargerð er ágætt að nota ávaxtasafa, grænmetissafa, vín eða súpukraft. Sama gildir um maríneringar.
 • Í stað rjóma í þykkar súpur er gott að þykkja með sósuþykkingarefni, maizena eða kartöflumauki úr soðnum kartöflum. Blandið vel til að fá jafna áferð.
 • Oft má draga úr 1/3 af olíunotkun við matargerð með því að bæta við sambærilegu magni vökva, t.d. vatni eða ávaxtasafa.
 • Í staðinn fyrir sýrðan rjóma er gott að þykkja léttsúrmjólk eða létt AB með því að sía í gegnum kaffipoka.
 • Notið salsasósu eða þykkta léttsúrmjólk/létt AB í stað sýrðs rjóma eða smjörs í bakaðar kartöflur.
 • Veljið fituminna kjöt – t.d. flest fuglakjöt, 8-12 % hakk, gúllas, hryggvöðva (ekki hrygg), og fitusnyrt kjöt.
 • Aukið hlut grænmetis með öllum máltíðum, borðið ávexti á milli mála og veljið oftar trefjaríkt grófmeti – það veitir fyllingu og er saðsamt.
 • Mikilvægt er að prófa sig áfram og breyta smátt og smátt – til dæmis er gott að draga hægt og rólega úr magni sykurs og feiti í uppskriftum með því að draga lítillega úr magninu á milli skiptanna sem bakað er – þannig finnið þið síður fyrir breytingunum og venjist nýja bragðinu.